Ávarp framkvæmdastjóra

Árið í hnotskurn

Með þessari fyrstu sjálfbærniskýrslu FISK Seafood ehf. er kærkomnum áfanga náð. Við höfum á undanförnum misserum safnað saman stórum og smáum upplýsingum úr rekstrinum um umhverfis-, félags- og stjórnarhætti fyrirtækisins. Afrakstur þeirrar vinnu birtist hér í tölum og rituðu mál. Sjálfbærni starfseminnar snýst þó að sjálfsögðu ekki fyrst og fremst um skráningu upplýsinganna heldur samanburð þeirra við fjölmörg mælanleg markmið sem félagið hefur sett sér.

Sjálfbærniverkefni FISK Seafood og árangursmælingar þeirra eru stöðugt tilhlökkunarefni. Það er strax orðið nánast útilokað að hugsa sér starfsemina án þessara vistvænu viðfangsefna. Kannski má líkja hugarfarsbreytingunni við það þegar notkun öryggisbeltanna í bílum var innleidd og síðan fest í lög. Menn þráuðust við í byrjun en núna dettur fáum í hug að spenna þau ekki. Meðvitund okkar um plastnotkun, flokkun sorps, orkugjafa, fullnýtingu afurðanna, verðmætaaukningu þeirra og marga aðra umhverfisþætti hefur nánast tekið stökkbreytingum á örfáum árum. 

Rétt eins og viðhorf einstaklinga og heimila hefur breyst hratt á ýmsum sviðum hefur rekstur fyrirtækjanna gert það líka. FISK Seafood er ekki að marka sér sérstöðu með því að taka upp sjálfbæra starfshætti heldur að fylgja almennri þróun, fyrirmælum og hvatningu til þess að gera stöðugt betur á þessu sviði. Sú árlega útgáfa skýrslunnar sem framundan er mun auðvelda okkur sem stöndum við stjórnvölinn, og hinum sem lesa og fylgjast með, að bera saman árangurinn á milli ára. Enda þótt viðbúið sé að afkomutölur í hinni hefðbundnu ársskýrslu um fjárhagslega reksturinn muni ávallt, eins og t.d. veðrið, eiga sínar hæðir og lægðir er full ástæða til bjartsýni um að í sjálfbærniskýrslunni verði miklu meiri stöðugleiki og vonandi einungis framfarir. Á þessu sviði eru utanaðkomandi óvissuþættir fáir og fyrirtækið fyrir vikið með sína eigin stjórn á flestum þáttum.

Öll þessi nýju markmið leysa langt í frá gömlu gildin okkar af hólmi. FISK Seafood hefur um langt árabil grundvallað alla sína starfsemi á þrennu: Að vera traustur vinnuveitandi, góður nágranni nærsamfélagsins og nærgætinn notandi þeirrar takmörkuðu auðlindar sjávar sem félaginu er treyst til að nýta. Veigamiklir þættir í þeirri árvekni eru annars vegar að minnka kolefnisspor veiða og vinnslu eftir fremsta megni og hins vegar að hámarka verðmæti afurðanna á þeim harða alþjóðlega samkeppnismarkaði sem félagið starfar á. Þar skipta nútímalegir hátækniferlar miklu máli til að kalla fram bestu mögulegu nýtingu og gæði sem hvorttveggja styrkir samkeppnisstöðu og hámarkar verðmætasköpun.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft talsverð áhrif á félagið í heild sinni. Í mars 2020 var gripið til umfangsmikilla aðgerða sem höfðu það að markmiði að tryggja öryggi starfsfólks og lágmarka truflanir í rekstri félagsins. Settar voru upp strangar verklagsreglur til verndar starfsfólkinu, m.a. með aðskilnaði starfsstöðva, auknu hreinlæti og sóttvörnum, takmörkuðu aðgengi að vinnustöðunum, skimun sjómanna fyrir brottför og fleiru.

Áhrif veirunnar hafa komið verst niður á sölu afurða til hótela, veitingastaða og stóreldhúsa í Evrópu sem flestum var gert að loka í faraldrinum. Félagið greip til þess ráðs að styrkja stöðu sína á smásölumarkaði og gera samninga við fleiri aðila til að dreifa áhættunni. Þessar gjörbreyttu aðstæður og verkefni reyndu mikið á sveigjanleika og aðlögunarhæfni starfsfólksins og þarf ekki að fjölyrða um frábæra frammistöðu þess gagnvart þessum nýja veruleika. Með skipulögðum aðgerðum á smásölu- og neytendamarkaði í helstu viðskiptalöndum okkar tókst að halda sjó og auka um leið breiddina í markaðsfærslunni. 

Á síðasta ári tókumst við einnig á við skertar aflaheimildir skipanna sem FISK Seafood gerir út. Í grunninn byggist allur rekstur félagsins á fiskveiðum og um leið fiskveiðiheimildum en í þeim hefur félagið fjárfest markvisst á síðustu árum. Við jukum verulega við kvótaeign okkar á árunum 2019-2020 og bættum á síðasta ári enn frekar í með því að færa okkur í auknum mæli inn á útgerð krókaaflamarks- og vertíðarbáta. Stærstu skrefin í þeim efnum voru kaup á Ölduósi ehf. á Höfn í Hornafirði og krókabáti félagsins, Lundey SK-3, kaup á 60% hlut í útgerð vertíðarbátsins Steinunnar SH-167 í Ólafsvík og nú síðast leiga á útgerð Nesvers og krókabátsins Tryggva Eðvarðs SH-2. Kvóti þessara báta hefur reynst afar mikilvægur í þeim samdrætti sem orðið hefur í veiðiheimildum togaranna. Alls nam skerðing þeirra 2.637 tonnum þorskígilda en aflaheimildir vertíðar- og krókabáta FISK Seafood eru orðnar 2.624 tonn þorskígilda eða ríflega 11% af veiðiheimildum félagsins.

Stærstu verkefnin okkar næstu misserin og árin eru annars vegar bygging nýs og hátæknivædds frystihúss á Eyrinni hér á Sauðárkróki og hins vegar endurnýjun í togaraflotanum. Í báðum verkefnunum leggjum við grunn að sjálfbærum áherslum í starfseminni og um leið auknum verðmætum afurðanna. Í nýju frystihúsi eru höfuðmarkmiðin enn frekari sjálfbærni, aukin gæði og lækkaður tilkostnaður. Nýsmíði togara sem mætir öllum ströngustu nútímakröfum á sviði öryggismála, umhverfisþátta og afkastagetu, m.a. með því að veiða í tvö troll í stað eins, er sömuleiðis ávísun á mikla hagræðingu. Fjárfestingar sem þessar breyta einnig aðbúnaði starfsfólks til lands og sjávar til mikilla muna. Það er ekki lítið atriði enda er FISK Seafood það ljóst að leiðin að fyrsta flokks starfsfólki er að vera fyrsta flokks vinnustaður.