FISK Seafood og heimsmarkmiðin
Á undanförnum árum hefur FISK Seafood þróað stefnu félagsins í ýmsum málum. Sú markmiðasetning, ásamt vottunum sem félagið hefur, styður við mörg af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. FISK Seafood tók einnig þátt í mótun samfélagssáttmála Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og skuldbatt sig um leið til þess að uppfylla hann. Heimsmarkmiðin sem félagið tengir sig sérstaklega við eru eftirgreind:
Heilsa og vellíðan
FISK Seafood hefur á síðustu árum þróað stefnu í öryggis- og vinnuverndarmálum. Félagið leggur áherslu á að auka markvisst öryggi starfsumhverfis og lágmarka slysahættu við störf. Við leitum leiða til að tryggja öruggt og heilsusamlegt vinnuumhverfi þar sem einelti, ofbeldi og kynbundið eða kynferðislegt áreiti er óheimilt.
Jafnrétti kynjanna
Árið 2020 hlaut FISK Seafood jafnlaunavottun til staðfestingar þess að fyrirtækið tryggir jöfn tækifæri og jafnrétti kynja til ábyrgðar og launa. Við líðum ekki mismunun og virðum fjölbreytileika. Hvers kyns misbeitingu vegna kyns, kynhneigðar, ólíks uppruna o.fl. er hafnað. Félagið lætur sér annt um jöfn tækifæri foreldra til töku fæðingarorlofs og samneytis við fjölskyldu sína.
Góð atvinna og hagvöxtur
FISK Seafood kappkostar að auka framleiðni með tækninýjungum og uppbyggingu innviða. Með þessu viljum við stuðla að afkastamikilli framleiðslustarfsemi þar sem fullvinnsla og fullnýting hráefnis á sér stað í sátt við umhverfi og samfélag. Félagið er meðvitað um það hlutverk sitt að opna fólki með skerta starfsorku leiðir að atvinnutækifærum.
Nýsköpun og uppbygging
FISK Seafood er virkur þátttakandi í verkefnum tengdum nýsköpun í sjávarútvegi. Félagið vill gjarnan tengjast enn frekar vísindarannsóknum og athugunum á áhrifum sjávarútvegs á auðlindir og umhverfi.
Ábyrg neysla og framleiðsla
FISK Seafood kappkostar að nýta allt hráefni sitt til hins ýtrasta og áframvinna hliðarafurðir eins og frekast er unnt. Það sem eftir stendur er sent til frekari vinnslu utan fyrirtækisins. Áherslur hringrásarhagkerfisins eru jafnt hafðar til hliðsjónar í framleiðsluferlinu sem í eigin neyslu og aðföngum.
Aðgerðir í loftslagsmálum
FISK Seafood hefur unnið að einföldun og endurnýjun á skipaflotanum á síðustu árum. Haft hefur verið að leiðarljósi að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis eins og kostur er. Einnig hefur félagið nýtt ýmis tækifæri til þess að skipta út ósoneyðandi kælimiðlum. Stefnt er að því að auka hlutdeild vistvænna orkugjafa sem eru raunhæfir og samkeppnishæfir.
Líf í vatni
Það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, og raunar heimsbyggðarinnar, að nýting fiskistofna sé sjálfbær. FISK Seafood setur sér það markmið að ganga vel um auðlindir hafsins með gagnsæjum og rekjanlegum veiðum og fara í hvívetna að lögum um veiðar. Til að staðfesta hollustu félagsins við sjálfbæra nýtingu auðlinda og ábyrgar fiskveiðar hefur félagið hlotið IRF vottun (Iceland Responsible Fisheries). Einnig er FISK Seafood með MSC rekjanleikavottun (Marine Stewardship Council) í skipum og vinnslum. FISK Seafood kastar ekki rusli í sjó né mengar hann með öðrum hætti og leggur sitt af mörkum til heilbrigðis vistkerfis sjávar sem fæðuuppsprettu mannkynsins.