Umhverfisþættir

Virðing og ábyrgð

FISK Seafood hefur það að markmiði að stuðla að sjálfbærri nýtingu fiskistofna og að umgangast auðlindir sjávar af virðingu. Stefna FISK Seafood er að þróa reksturinn áfram með sjálfbærum veiðum og vinnslu og lágmarka mengun frá starfseminni. Árið 2021 hófst undirbúningur að kolefnisjöfnun framleiðslunnar með það að markmiði að árið 2040 verði félagið kolefnishlutlaust. Þetta verður gert með því að auka flokkun á úrgangi, minnka urðun, skipta út kælimiðlum, draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og kolefnisjafna reksturinn með skógrækt.

image description

Ábyrgar fiskveiðar, rekjanleiki afurða og gæði

Það er hagsmunamál allrar þjóðarinnar, og raunar heimsbyggðarinnar, að nýting fiskistofna sé sjálfbær. FISK Seafood setur sér það markmið að ganga vel um auðlindir hafsins með gagnsæjum og rekjanlegum veiðum jafnframt því að fara í hvívetna að lögum, reglum og samþykktum um veiðar. Til að staðfesta hollustu félagsins við sjálfbæra nýtingu auðlinda og ábyrgar fiskveiðar hefur félagið hlotið IRF vottun (Iceland Responsible Fisheries) auk þess sem lögbundið eftirlit Fiskistofu fer fram. 

FISK Seafood gerir sér grein fyrir mikilvægi þess að nýting fiskistofna sé sjálfbær og heilbrigði lífríkis sjávar um allan heim eins vel varðveitt og nokkur er kostur. Árið 2011 stofnuðu Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Landssamband smábátaeigenda félagið Ábyrgar fiskveiðar ses. Tilgangurinn var að annast rekstur vörumerkja um ábyrgar fiskveiðar, gerð og viðhald samninga um vottun ábyrgra fiskveiða, miðlun upplýsinga um fiskveiðar Íslendinga, með sérstakri áherslu á kaupendur og neytendur íslenskra sjávarafurða, og önnur skyld verkefni. Markmið félagsins er að stuðla að og viðhalda ábyrgum fiskveiðum til hagsbóta fyrir komandi kynslóðir. FISK Seafood er aðili að þessu félagi í gegnum Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

FISK Seafood er hluthafi í ISF (Iceland Sustainable Fisheries). Félagið var stofnað 2012 af nokkrum fyrirtækjum sem stunda veiðar, framleiðslu og sölu á íslenskum sjávarafurðum víða um heim. FISK Seafood starfar samkvæmt alþjóðlegum stöðlum sem hafa það að markmiði að tryggja rekjanleika afurða frá veiðum til kaupanda auk þess að vinna eftir kerfum sem fela í sér áhættugreiningu sem hámarkar gæði og öryggi afurða. Félagið hefur um árabil verið með IFS vottun (International Food Standard) í vinnslunni á Sauðárkróki. Sú vottun tekur á yfirstjórn matvælaframleiðslu, matvælaöryggi, verklagi, aðstöðu, búnaði og mælingum sem allt byggir á og miðast við hættugreiningu. Auk þess er FISK Seafood með MSC rekjanleikavottun (Marine Stewardship Council) í skipum og vinnslum. Sú vottun tryggir rekjanleika frá veiðisvæði til kaupanda.

Orkunotkun skipa

Á árinu 2021 notuðu skip FISK Seafood um 7,8 milljónir lítra af eldsneyti sem áætlað er að losi um 21,2 þúsund tonn af CO2 ígildum. Bílar, lyftarar og önnur flutningstæki félagsins losuðu um 46,9 tonn af CO2 ígildum. Á móti þessari losun voru veidd rúmlega 24 þúsund tonn af slægðum fiski.  Þetta samsvarar losun upp á 0,88 tonn af CO2 ígildi á hvert tonn af slægðum fiski. Skipaflotinn samanstendur af fjórum ísfiskskipum og einu frystiskipi. Á síðustu árum hefur félagið unnið að því markmiði að vera með færri en hagkvæmari skip, bæði hvað varðar olíueyðslu og veiðigetu. 

Olíunotkun skipa sveiflast á milli ára vegna mismunandi aðstæðna á miðum, mismunandi áherslna í sjósókn og sveiflum í aflabrögðum. Árið 2021 var Arnar HU-1 í slipp í 3 mánuði og sést það á heildarolíunotkun ársins þar sem hún er lægri heldur en árin á undan.

Við leggjum áherslu á að skipstjórnarmenn nýti landrafmagn í inniveru skipa eins og kostur er.

Krókabáturinn Tryggvi Eðvarðs SH-2 var ekki gerður út fyrr en í desember 2021.

Olíunotkun skipa milli ára

Olíunotkun skipa 2021

Rafmagn

Árið 2021 notaði FISK Seafood 7.310.575 kílóvattstundir af rafmagni vegna skipa, fiskvinnslu og fiskeldis. Hjá félaginu er lögð áhersla á að nota endurnýtanlega orkugjafa eins og kostur er, t.d. með því að tengja skip í landrafmagn þegar þau eru í höfn. Á árinu var ákveðið að selja báðar fiskeldisstöðvar félagsins og má því búast við að rafmagnsnotkun félagsins dragist saman.

Úrgangur

Árið 2021 var ráðist í aukna flokkun á úrgangi sem fellur til vegna bæði veiða og vinnslu. Gerður var samningur við Ísfell á Sauðárkróki um að taka öll veiðarfæri sem koma á land á Sauðárkróki í hreinsun og flokkun fyrir endurvinnslu. Á árinu 2021 tók Ísfell við 20,3 tonnum af veiðarfærum frá félaginu til endurvinnslu. Á Grundarfirði skila sjómenn inn flokkuðum veiðarfærum til hafnarinnar sem kemur þeim til endurvinnslu. Á Sauðárkróki voru flokkunargámar fyrir grófan úrgang og timbur teknir í notkun til að bæta aðgengi að gámum fyrir flokkaðan úrgang.

Nýting hráefnis í vinnslum félagsins er góð og áframvinnsluleiðir eru til fyrir allar hliðarafurðir sem falla til. Skip félagsins koma í land með allan úrgang sem fellur til á sjó samkvæmt reglum um losun á sorpi frá skipum á sjó í Marpol samningnum, viðauka V. Hlutfall rekstrarúrgangs sem var flokkaður árið 2021 var 50,3%.

Nærsamfélagið

FISK Seafood skrifaði á árinu 2020 undir samfélagsstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og einsetur félagið sér að fylgja henni í hvívetna og gera betur þar sem tækifæri gefast til. FISK Seafood leggur sömuleiðis áherslu á víðtæka þátttöku í leik og starfi starfsfólks síns og nágranna í nærsamfélaginu. Sérstaklega er horft til verkefna sem tengjast uppbyggingu og framþróun og kappkostað er að stuðningurinn við góð málefni sé sem fjölbreyttastur. Á meðal stuðningsverkefna FISK Seafood eru: 

  • Rekstur húsnæðis fyrir fiskeldisdeild Háskólans á Hólum
  • Íþrótta- og æskulýðsstarf
  • Félagasamtök
  • Öryggismál
  • Samfélagsverkefni
  • Góðgerðarmál
  • Umhverfismál
  • Nýsköpunar- og rannsóknarverkefni
     

FISK Seafood er virkur þátttakandi í verkefnum tengdum vísindarannsóknum og nýsköpun í sjávarútvegi sem nýtast bæði nærsamfélaginu og alþjóðasamfélaginu. Við styðjum við þá sem minna mega sín og hefur mikilvægi þess að leggja sitt af mörkum ekki síst sannað sig í þeirri heimskreppu sem á hefur skollið. Við höfum einnig tekið þátt í því verkefni með móðurfélagi okkar að styðja þá sem minna mega sín með matargjöfum.

Losun og losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda

Losun gróðurhúsalofttegunda

Vísir Eining 2021 Athugasemdir
Umfang 1
Eldsneyti skip tCO2íg 21.234 Skipt var um frystikerfi í Arnari HU-1 þar sem umhverfisvænni kælimiðill var settur um borð.
       
Umfang 2
Rafmagn tCO2íg 72
       
Umfang 3      
Eldsneytis- og orkuframleiðsla tCO2íg 4.966
Úrgangur tCO2íg 65
       
Samtals tCO2íg 26.666

Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda

Vísir Eining 2021 Athugasemdir
Losunarkræfni orku tCO2í/kWst 3,6
Losunarkræfni starfsmanna tCO2í/stöðugildi 98,8
Losunarkræfni á hvern fermetra tCO2í/m2 0,9
Losunarkræfni m.v. rekstrartekjur tCO2í/þús.kr. 2,5
Losunarkræfni á veitt tonn tCO2í/veitt tonn 1,1

Loftslagseftirlit / stjórn

Vísir Eining 2021 Athugasemdir
Hefur stjórn yfirumsjón með og/eða stýrir loftslagstengdri áhættu? já/nei nei

Loftlagseftirlit stjórnenda

Vísir Eining 2021 Athugasemdir
Hefur framkvæmdastjórn yfirumsjón með og/eða stýrir loftslagstengdri áhættu? já/nei nei

Mildun loftlagsáhættu

Vísir Eining 2021 Athugasemdir
Fjárfestingar í loftslagstengdum innviðum og vöruþróun þús. kr. 141.000 Frystikerfi Arnar HU-1