Stjórnarhættir
Stjórn FISK Seafood félagsins sendir frá sér stjórnarháttayfirlýsingu ár hvert sem er birt samhliða ársreikningi. Yfirlýsingin er þáttur í innleiðingu góðra stjórnarhátta hjá félaginu með það fyrir augum að styrkja innviði þess og auka gagnsæi í starfseminni.
FISK Seafood er eitt af stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og hefur skipað sér í fremstu röð fyrirtækja á sínu sviði. Hlutverk félagsins er að auka verðmætasköpun í sjávarútvegi í sátt við samfélagið og umhverfið. Rekstur félagsins er háður ítarlegu regluverki og opinberu eftirliti hvað varðar rekstur skipa og vinnslna. Félagið leggur áherslu á að viðhafa og fylgja eftir skýrum ferlum og eftirlitskerfum svo að tryggt verði að rekstur félagsins uppfylli þær kröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.
Stjórnarhættir FISK Seafood ehf. eru í samræmi við lög og reglur sem gilda um starfsemi félagsins, s.s. ákvæði laga 3/2006 um ársreikninga og laga 138/1994 um einkahlutafélög sem aðgengileg eru á vef Alþingis, www.althingi.is. Stjórnarhættir félagsins eru samkvæmt leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja, 6. útgáfu, gefnum út af Viðskiptaráði Íslands, NASDAQ Iceland hf. og Samtökum atvinnulífsins. Áherslur FISK Seafood í góðum stjórnarháttum ráðast meðal annars af lögum nr. 2/1995 um hlutafélög, starfsreglum stjórnar og samþykktum félagsins.
Stjórnendur félagsins viðhafa virkt eftirlit með áhættuþáttum sem félagið býr við, setja viðmið um áhættutöku og hafa eftirlit með henni. Aðferðir við áhættustýringu eru yfirfarnar reglulega til að endurspegla breytingar á markaðsaðstæðum og starfsemi samstæðunnar. Til staðar eru stefnur og markmið vegna öryggis-, siðferðis-, samfélags-, jafnlauna-, sjálfbærni-, umhverfis- og gæðamála. Félagið hefur hlotið International Food standard (IFS) vottun á sviði gæðamála, Marine Stewardship council (MSC) vottun á sviði rekjanleika afurða og jafnlaunavottun skv. ÍST85:2012 staðli.
Á árinu 2021 var kosin endurskoðunarnefnd félagsins. Endurskoðunarnefnd FISK Seafood er undirnefnd stjórnar félagsins og er skipuð af henni í samræmi við IX. kafla A. laga nr. 3/2006, um ársreikninga. Endurskoðunarnefnd leitast við að tryggja gæði ársreikninga og annarra fjármálaupplýsinga félagsins og óhæði endurskoðenda þess. Nefndin hefur sett sér starfsreglur. Í endurskoðunarnefnd eru þau Gunnar Þór Ásgeirsson (formaður), Ingileif Oddsdóttir og Herdís Á Sæmundardóttir.
Stjórn og starfsreglur stjórnenda
Í stjórn FISK Seafood eru fimm stjórnarmenn og fimm til vara. Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs í senn og fer kosning fram á aðalfundi félagsins. Stjórn ber ábyrgð á því að starfsemi félagsins sé í samræmi við lög og reglur sem um félagið gilda og góða viðskipta- og stjórnarhætti. Stjórnin sinnir stefnumótun og töku meiriháttar ákvarðana í rekstri félagsins í samræmi við starfsreglur stjórnar. Stjórn hefur eftirlit með bókhaldi og fjárreiðum félagsins. Í stjórn félagsins sitja þrír karlar og tvær konur og uppfyllir félagið því ákvæði laga um kynjahlutföll í stjórnum stórra félaga.
Stjórnin hefur sett sér starfsreglur þar sem meðal annars er að finna ákvæði um skiptingu starfa innan stjórnar, verksvið stjórnar, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra, verklag og reglur um fundarsköp, upplýsingagjöf og fleira. Stjórn og framkvæmdastjóri félagsins eru ábyrg fyrir því að til staðar sé fullnægjandi innra eftirlit og áhættustýring hjá félaginu.
Á starfsárinu 2021 voru haldnir 12 stjórnarfundir.
Innra eftirlit, áhættustýring og árangursmat
Ársreikningur samstæðunnar er gerður í samræmi við lög um ársreikningar. Áhersla er lögð á vöktun og eftirfylgni í áhættustjórnun félagsins. Áhættustjórnun felur í sér reglulegt innra eftirlit þar sem fjárhagslegar áhættur eru greindar, vaktaðar og kynntar á stjórnarfundum. Helstu fjármálalegu áhættur sem hafa áhrif á félagið eru gjalmiðlaáhætta, vaxtaáhætta og lausafjáráhætta.
Innra eftirlit FISK Seafood byggir á skýru skipulagi og aðgreiningu starfa. Unnið er að skilgreiningu og skjölun ferla sem mynda virkar eftirlitsaðgerðir. Reglubundin uppgjör eru mikilvægur hluti innra eftirlits og er fylgst vel með gæðum upplýsinga og helstu kerfa. Stjórn FISK Seafood ber ábyrgð á innra eftirliti en endurskoðunarnefnd starfar í umboði stjórnar og fylgist m.a. með skilvirkni innra eftirlits til samræmis við skyldur sínar.
Á árinu 2021 komu ekki upp nein frávik frá leiðbeiningum um góða starfshætti. Engin mál komu upp vegna brota á lögum og/eða reglum sem viðeigandi eftirlits- og eða úrskurðaraðilar hafa ákvarðað.