Um FISK Seafood
FISK Seafood ehf. er sjávarútvegsfyrirtæki sem gerir út fiskiskip og heldur úti veiðum, vinnslu og sölu á sjávarafurðum. Félagið leggur áherslu á einfaldan og sjálfbæran rekstur, markvissa nýtingu aflaheimilda og vinnslu sem ætlað er að hámarka virði framleiðslunnar. Áhersla er lögð á að veiðar og vinnsla afurðanna sé í góðri sátt við umhverfi og samfélag. FISK Seafood sérhæfir sig í framleiðslu á sjófrystum- og léttsöltuðum afurðum auk framleiðslu á hefðbundnum saltfiski.
FISK Seafood er með starfsstöðvar á Sauðárkróki og í Grundarfirði. Stærstur hluti af umsvifum FISK Seafood er á Sauðárkróki þar sem aðalskrifstofa félagsins er staðsett. Þaðan gerir félagið út þrjú skip, frystiskip og tvö ferskfiskskip auk eins smábáts. Á Sauðárkróki er bolfiskvinnsla sem framleiðir léttsaltaðar afurðir auk framleiðslu á þurrkuðum hliðarafurðum. Dótturfélag FISK Seafood, Soffanías Cecilsson er staðsett í Grundarfirði og sérhæfir sig í framleiðslu á hefðbundnum flöttum saltfiski. Þar gerir FISK Seafood út eitt ísfiskskip og einn krókabát en dótturfélagið gerir út eitt ísfiskskip. Heildarfjöldi stafsmanna beggja félaga í lok ársins 2021 var 270.
FISK Seafood hefur á síðustu árum aukið kvótahlutfall sitt til muna og er á meðal stærstu sjávarútvegsfélaga landsins í úthlutuðum bolfiskkvóta. Gerðar hafa verið stjórnunarlegar breytingar á síðustu árum og hefur FISK Seafood unnið að einföldun félagsins. Meðal annars var rækjuvinnslu í Grundarfirði og á Hólmavík hætt, bleikjueldi Hólalax var einnig lagt af, starfsemi Náttúru fiskiræktar í Þorlákshöfn var seld og sömuleiðis fæðubótarframleiðsla Prótis á Sauðárkróki. Einnig hefur FISK Seafood dregið úr eigin sölustarfsemi til muna en félagið á hlut í Icelandic Seafood International sem sér að langstærstum hluta um söluþáttinn. Stærstu markaðslönd félagsins árið 2021 voru Spánn og Bretland.
Þróun á starfsemi FISK Seafood er háð nokkrum utanaðkomandi þáttum sem það getur lítil sem engin áhrif haft á. Félagið er m.a. háð menningu og neyslu í Suður-Evrópu á framleiðsluafurðunum og það er einnig háð kvótasetningu og lagaramma hvers tíma utan um sjávarútveg á Íslandi. Fjórða iðnbyltingin, einkum í tækniþróun á véla- og hugbúnaði, mun einnig án vafa breyta miklu í starfseminni.